Mistúlkanir á starfi virkjanahönnuða
Í þættinum Speglinum í Ríkisútvarpinu föstudagskvöldið 4. maí fullyrti Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur að þeir sem stæðu að virkjunum á Íslandi væru verkfræðingar sem lítt huguðu að lífríki. Náttúrufræðingar væru lítið kvaddir að verkferlinu til varnar flókinni og viðkvæmri náttúru. Síðan fylgdu meira en 40 ára gamlar dæmisögur af misvitrum verkfræðingum. Dregin voru fram dæmi um skuggalegar virkjanahugmyndir á árum áður og látið að því liggja að svona væru vinnubrögðin ennþá.Nútíminn
Sjálfsagt er það rétt að blóm og hreiður hafa ekki verið ofarlega í huga þeirra sem leituðu að mögulegum virkjunarkostum á árum áður. Menn sinntu starfi sínu í samræmi við það hlutverk og þann tíðaranda sem ríkti. Hugleiðum nú réttmæti þessara lýsinga Guðmundar Páls í samhengi við það sem gerist nú á tímum. Við lifum í nútímanum og tökum afstöðu til þess sem nú er á döfinni og viljum fá aðgang að bestu vísindalegu upplýsingum sem til eru. Nú til dags hlíta framkvæmdir mati á umhverfisáhrifum og koma margir þar að en lokaákvörðun um framkvæmdir er pólitísk.Framlag til náttúrufræða tengt orkuöflun
Undirritaður hefur unnið á Orkustofnun í 37 ár, í hópi tuga ef ekki hundraða náttúrufræðinga og verkfræðinga, að rannsóknum á hinum ýmsu fyrirbrigðum náttúrunnar. Orkustofnun og orkufyrirtækin hafa staðið fyrir og kostað víðtækar náttúrufræðirannsóknir á virkjunarstöðum í áratugi. Nú er því svo komið að þar sem mestir möguleikar eru á beislun orku er mest þekking á náttúrufari landsins. Þar má m.a. nefna umfangsmiklar landmælingar og kortagerð, jarðfræðikortlagningu, jarðeðlisfræðimælingar, mælingar á afkomu jökla og rennsli fallvatna, rannsóknir á framburði jökuláa, kortlagningu á gróðurfari og dýralífi í miklum mæli o.s.frv. Einnig hefur á síðustu áratugum fengist betri þekking á þeirri gríðarmiklu orku sem fólgin er í jarðhita. Þegar framkvæmdir hlíta mati á umhverfisáhrifum eru kallaðir til sérfræðingar af ýmsu tagi og er matið að lokum að stærstum hluta greitt af virkjunaraðila. Heimildir um náttúru Íslands væru mun fátæklegri ef framlags tengt orkurannsóknum hefði ekki notið við. Hin mikla gagnasafn verður síðan undirstaða margra fræðiverkefna. Fjárupphæðir sem hér um ræðir eru háar miðað við þær sem ríkið skenkir einstökum vísindamönnum til fræðirannsókna. Sá sem virkjar endurgreiðir hlut ríkisins í rannsóknarkostnaði.Framburður jökuláa
Þegar ég hóf störf á Orkustofnun árið 1970 var eitt fyrsta verkefni sem ég tók þátt í að safna aurburðarsýnum úr jökulám. Haukur Tómasson jarðfræðingur stýrði þá virkjunarrannsóknunum. Frá upphafi (um 1963) og þar til nú hefur sennilega farið um milljarður króna í rannsóknir á aurburði á vegum Orkustofnunar og Landsvirkjunar. Við tókum sýnishornin af brúm og notuðum bíl með gálga til þess að ná sýnishornunum og töfðum þannig umferð stutta stund. Þetta varð til þess að margir gengu til okkar og spurðu hvað við værum að gera. Svarið, könnun á aflrænu rofi á Íslandi, fyllingu lóna og spá um breytingu stranda, mætti oftast litlum skilningi í þá daga. Athugasemdir eins og að við værum að sóa almannafé í vitleysu fengum við oft beint eða óbeint. Í tólf ár var rekið tilraunalón við Langöldu, sem er neðan Hrauneyjafoss, og flestir þættir kannaðir svo sem fylling, þétting, hvernig aurinn legðist á botninn, kornadreifing, sandfok o.s.frv. Virkjanaaðilar hafa tekið fullt tillit til allra þessara rannsókna. Síðan hefur Landsvirkjun rekið mörg stór lón sem jökulár renna í þannig að fyrirbrigðið er orðið allvel þekkt. Uppistöðulón hafa ekki reynst vera sandfoksuppsprettur.Sjálfskipaðir sérfræðingar í áróðursherferð
Mikil þekking liggur nú fyrir á framburði og er hún opin þeim sem hana vilja nálgast. Svo vill til að einmitt á þessu sviði hafa orðið til margir sjálfskipaðir sérfræðingar sem láta ekki sitt eftir liggja að fræða og kenna út frá brjóstvitinu einu. Hættir þeim mjög til að gera úlfalda úr mýflugu. Er mér kunnugt um leikmenn sem selja skoðunarferðir inn að Hálslóni og fræða þar ferðamenn um framburð á þann hátt að upp á framsetningu þeirra myndum við sem höfum kannað þetta mest aldrei skrifa. Blandað er saman ólíkum þáttum, heils árs sveiflu í miðlunarlóni er lýst eins og afleiðingar hennar séu svipaðar og verða af Skaftárhlaupi eða dagsveiflu Jökulsár á Fjöllum sem er alls ólíkt. Hvernig ætli fagfélög tækju slíkri innrás leikmanna almennt? Þessi útgáfa hefur átt mjög greiða leið í bæði prentaða fjölmiðla og ljósvakamiðla og lítt verið borin undir fagaðila.Einstaklingar hafa sett fram þá fullyrðingu að aursöfnun í miðlunarlón hafi áhrif á þorskstofninn. Þessi fullyrðing byggist á afar veikum forsendum. Hluti framburðarins, sá fínkornótti og uppleystu efnin, setjast ekki í lónin heldur fara út í sjó. Fínu kornin hafa hlutfallslega stórt yfirborðsflatarmál, og af þeirri ástæðu er leysni þeirra hærri, og hugsanleg áhrif á efnaburð til sjávar. Leysing snævar og afrennsli af landinu er ólík milli ára. Þumalfingursregla gæti verið að það rennur af láglendinu á vorin á hrygningartíma þorsksins en af hálendi hafa vorflóð lengst af komið um miðjan júní. Hálslón tel ég lítil sem engin áhrif hafa á vetrarblota og vorflóð.
Lesendabréfin
Mikill fjöldi lesendabréfa hefur birst í Morgunblaðinu undir stórum fyrirsögnum þar sem bréfritarar fara inn á svið þar sem þeir eru ekki á heimavelli en setja fram hlutina eins og þeir séu sérfræðingar. Oftast er villan sú að ósambærilegar stærðir eru lagðar til jafns. Þegar égræði þetta við samstarfsmenn hvort ekki eigi að leiðrétta villur og fræða fólk þá er svarið að okkar hlutverk sé ekki að munnhöggvast við fólk í blöðum um pólitísk mál heldur veita eingöngu raunupplýsingar sem beðið er um. Þetta verður til þess að leikmenn sjá um fræðsluna á tæknilegu hliðinni og færa sig stöðugt upp á skaftið í fullyrðingum um hegðun náttúrunnar án þess að kynna sér fræðin. Það er þreytandi að vinna að rannsóknum árum saman og fá niðurstöður en þurfa svo að hlýða á órökstuddar fullyrðingar fólks sem litla þekkingu hefur á málinu. Mér mislíkar alltaf þegar ég sé að verið er að mála skrattann á vegginn til þess að blekkja fólk til fylgis.
Bráðnun jöklanna er alvörumál
En hvað er stórt í náttúrunni? Hálslón þekur um hálft prómill af flatarmáli Íslands, jöklarnir 10%. Á meðan Kárahnúkastífla var reist kom mun stærra land undan jökli en fer undir Hálslón. Því er spáð að jöklarnir muni bráðna að mestu á næstu 200 árum. Þúsundir ferkílómetra af nakinni grjóturð koma undan jöklunum, útfall jökulánna færist til. Kringilsá fer t.d. að öllum líkindum í sameiginlegt útfall með Jöklu, ný jökullón myndast og framburður til stranda breytist. Áhrif jökla á grunnvatn breytast. Mikið farg fer af jarðskorpunni. Breytingin verður ekki aðeins sú að við sjáum jöklana hverfa heldur verða jarðfræðilegar afleiðingar líklega öllu meiri og afdrifaríkari en fyrirhuguð tilfærsla á vatnsföllum.Norðlingaölduveita sem dæmi um villandi fréttaflutning til að rugla hugmyndir almennings
Miklar rannsóknir hafa farið fram á náttúru Íslands. Mikil þekking hefur safnast og ætti hún að vera grundvöllur að umræðu um umhverfismál. En þar er mikil brotalöm. Það er ekki góður fréttaflutningur þegar fólk byggir skoðanir sínar á misskilningi sem hefur viljandi verið laumað inn. Ómar Ragnarsson sýndi hvað eftir annað myndskeið af gróðurlendinu í Þjórsárverum á meðan hann fjallaði um Norðlingaölduveitu og lón hennar í sjónvarpsfréttum. Niðurstaðan er sú að stór hluti þjóðarinnar heldur að þar hafi verið sýnt land sem ætti að sökkva. Það er ekki rétt og þá stóð ekki til að spilla að neinu marki því sérstæða votlendi sem jafnan er vísað til í umræðunni. Vatn rennur úr verunum í Þjórsá og burt í henni. Áin vökvar ekki gróðurlendið. Sýnt hefur verið fram á það með rannsóknum.Er hægt að varðveita náttúruna í núverandi mynd?
Núverandi ástand í Þjórsárverum er að einhverju leyti háð jöklinum og því hitastigi sem ríkir. Hvað gerist þegar jökullinn hopar eða hverfur? Þá breytist flæði vatnsins, hitastig verður orðið hærra og forsendur fyrir gróðurfari á hverjum stað verða fljótt allt aðrar en nú. Hætt er við að rústirnar (sífrerinn) verði ekki langlífar. Það er ekki langt í þetta, breytingar verða orðnar á ævi barna okkar. Óhjákvæmilegt er að breytingar verði á náttúru í Þjórsárverum á næstu hundrað árum.Norðlingaölduveita er mér ekkert hjartans mál en ég tel að það skipti engu máli fyrir lífríki í Þjórsárverum í komandi atburðarás hvort hluta af því sem eftir er af Þjórsá neðan Þjórsárvera verður veitt austur í Sauðafellslón eða ekki, . Breytingar af völdum veitunnar verða helst sjónrænar og enn stærri hluti vatnsins sem áður rann um fossana Dynk og Gljúfurleitarfoss yrði tekinn af. Reyndar hafa 40% vatnsins verið tekin nú þegar.
Náttúruvernd
Mér finnast verndarforsendur nokkuð einfaldar í huga margra þeirra sem fremstir fara í náttúruverndarbaráttunni. Ofuráhersla er oft lögð á þætti sem skipta litlu máli. Það misvægi getur orðið til þess að skynsamlegar ákvarðanir eiga erfitt uppdráttar í öfgafullri umræðu.Hlýnun loftslags og bráðnun jökla er staðreynd sem taka verður með í framtíðarsýn og við mat á afleiðingum gerða okkar verður að taka mið af öllu sem við vitum. Rammaáætlun getur verið góð hugmynd en það mun reynast erfitt að mæla fegurð og leggja á vogarskálar á móti hagvexti. Hinsvegar ættu menn að geta orðið sammála um að leitast við að ná hverri einingu í efnahagslegum ábata af virkjunum með sem minnstri fórn á náttúrufegurð. Röskun á mikilvægu lífríki í hringrás náttúrunnar er sennilega auðveldara að meta. Framlag til minnkunar gróðurhúsalofttegunda er greinilega mikilvægt. Vonandi verða menn farsælir við að meta hvort er verðugra verkefni framlag okkar til lofthjúpsins og efnahagsleg afkoma eða halda í mikilvæg svæði í náttúrunni. Í umræðunni vill brenna við að hugtakið mikilvægt sé notað að hentugleikum.
Höfundur er jarðfræðingur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning